Eyvindarstaðahlaupið 14. maí, 2011

* Ekkert skráningargjald
* Drykkjarstöðvar á leiðinni
* Bílferðir til baka frá Eyvindarstöðum
* Hjól keyrð til baka frá Eyvindarstöðum
* Grillveisla og próteinstykki að Eyvindarstöðum
* Brautargæsla á leiðinni, flutningur fyrir þá sem komast ekki alla leið

Hlaupið frá Átaki: kl. 9:00
Hlaupið frá Hrafnagili: kl. 10:30
Hlaupið frá Smámunasafninu: kl. 12:00
Hjólað frá Átaki kl. 10.30

Stefnt er að því að fara í sund að Hrafnagili að hlaupi loknu. Brautargæsla getur tekið poka/töskur í bíla fyrir þá sem vilja.  Skráning á hlaup.is

Hlökkum til að sjá ykkur og eiga skemmtilegan dag saman :-)

Minning um Gísla Ólaf Ólafsson

p1000352.jpgp1000370.jpgp1000375.jpgp1000377.jpg

Myndataka: Börkur Árnason.

 

Ég sá Gísla hlaupavin minn síðast laugardaginn áður en voveiflegu fréttirnar bárust.  Þá mætti hann glaður og reifur í Eyrarskokk og við fórum inn í fjörð, þangað sem Hitaveiturörið liggur undir veginn.  Gísli var þessi týpa sem er svo gaman að hafa með í hópnum.  Alltaf í góðu skapi, alltaf til í að koma með góð ráð og skemmtilegar athugasemdir.  Og alltaf til í það sem var á dagskránni.  Við Gísli vorum sem oftar samferða í bíl ásamt fleirum, síðastliðið sumar þegar við hlupum Laugaveginn.  Gísli svoleiðis reytti af sér brandarana og þegar við hin lentum í hverju hláturskastinu eftir öðru, þá var hann svo hógvær að segja að hann væri ekkert fyndinn, þetta væri bara merki um sérstakan húmor hjá okkur hinum.   Þetta var fyrsti Laugavegurinn hans og hefði örugglega ekki verið sá síðasti ef við hefðum fengið að hafa hann hjá okkur áfram.  Að vísu var Laugavegurinn ekki á dagskrá hjá honum núna næsta sumar, heldur New York marathon.  Hann var á sama báti og svo margir  aðrir Eyrarskokkarar sem höfðu uppgötvað frelsið og ánægjuna við að vera í góðu formi og geta hluti sem maður hafði eiginlega aldrei ímyndað sér að maður myndi gera.  Hlaup voru orðin lífsstíll hjá honum, hann hafði léttst mjög mikið og sagðist vera hættur að segja hluti eins og að það væri engin ástæða til að labba það sem væri hægt að keyra og fleira í þeim dúr.  Það var nú aldeilis ekki eins og hann ætti ekki bíl, við vorum einmitt að tala um það á leiðinni til baka þarna framhjá Hvammi á laugardaginn að hann hafði verið á „gamla grána" sem er ekki lengur grár heldur grænn að keyra um allan bæ í stórhríðinni um daginn, bjargandi fólki sem hafði fest sig. 

Það er svo óskiljanlegt að svona geti gerst.  Gísli var alltaf í endurskinsvesti, sumar sem vetur, alveg sama hvernig veðrið var.   Þannig að ekki er hægt að kenna því um.  Ég hafði sjálf hlaupið framhjá þessum stað þar sem slysið varð fyrr um daginn og séð með eigin augum að aðstæður þar voru bara fínar fyrir utan smá ísingu kannski, vegurinn fínn, auður og breiður.  Ef það er hættulegt að hlaupa þar, þá er hættulegt að vera allstaðar þar sem von er á bílum.  En það væri alls ekki í anda Gísla að láta svona draga úr sér kjarkinn hvað hlaup varðar.   Ég ætla allavega að halda áfram og vona að allir hlaupavinir okkar haldi uppi minningu hans með því að gera slíkt hið sama.  Ég votta fjölskyldu hans og ástvinum innilegustu samúð mína.

Arnfríður Kjartansdóttir

 008.jpg

 013_1056577.jpg

Myndataka: Ívar Christensen.


Vetrarpepp

Sælir Eyrarskokkarar

Hlaupahópurinn er í fullu fjöri þótt það séu fáir sem mæta á æfingar stundum.  Hvað með að allir komi nú úr híðinu, skápnum, dvalanum, einmanaleikanum, sjálfstæðisviljanum og hverju sem veldur að fólk mætir ekki á æfingar. 

Á laugardaginn 15. janúar er upplagt að mæta eins og venjulega kl. 9:30 í Átak og fara síðan áleiðis inn í Eyjafjörð um Aðalstrætið.  Fólk snýr þá bara við þegar hverjum og einum hentar, hjá Skautahöllinni (5 km), Flugvellinum (7 km), Skiltunum (10 km), Hitaveiturörinu (14 km)...

Vonandi fær maður einhverntíma að sjá fólkið sem var í byrjendahópnum fyrir jól. 

Nú, og eftir hlaupin er hægt að skella sér í pottinn og jafnvel sána í Átaki og ræða hlaupamarkmið ársins 2011.  Öll markmið eru jafn rétthá hvort sem það er eitthvert ultramaraþon eða ein af styttri vegalengdunum í götuhlaupunum hér heima sem stefnt er að.

Munið eftir vestunum.  Þeir sem eiga ekki endurskinsvesti eru eindregið hvattir til að verða sér úti um eitt slíkt.  Það má kaupa þetta í flestum búðum sem selja eitthvað vinnufatatengt, (Húsasmiðjunni, Byko, Europris) og mér skilst að tryggingafélögin séu líka með vesti.

Snjóhlaupakveðja,
Fríða

Smá líf

Sælir hlaupaáhugamenn.

 Ég fæ öðruhvoru tölvupósta frá fólki sem segist hafa skoðað síðuna þannig að einhverjir lesa þetta.  Eyrarskokk er í fullu fjöri, það er ekki það.  Það byrjaði byrjendahópur í haust sem mun starfa fram að jólum.  Sá hópur hleypur á mánudögum og miðvikudögum kl. 17:30.  Það kostar ekkert að vera með.  

Gamli hópurinn virðist að mestu samanstanda af hlaupurum sem helst vilja hlaupa 14 kílómetra í einum spretti og svo slatta af hlaupurum sem fara styttra á öðrum tímum en Eyrarskokk safnast saman á.   Það er áfram hlaupið frá Átaki kl. 17:15 á mánudögum og miðvikudögum, kl. 12:10 á þriðjudögum og fimmtudögum og kl. 9:30 á laugardögum.  Það er bara um að gera að mæta.

Svo er nefnilega spennandi hvernig veðrið verður síðasta laugardag fyrir jól, sem í ár er 18. desember.  Ef veðrið er skaplegt er um að gera að viðhalda hefðinni að hlaupa sólstöðuhlaup upp að neðra mastrinu í Vaðlaheiði.  Við sjáum til þegar nær dregur.

 

Hlaupakveðja,

Fríða


Myndir

Var að setja nokkrar myndir frá æfingunni í dag hér í myndaalbúm til hliðar.

Fríða


Eyvindarstaðahlaupið 15. maí 2010

Eyrarskokk er bara tveggja ára næstumþví, en samt eru komnar gamlar og góðar hefðir hjá okkur.  Ein þeirra er Eyvindarstaðahlaupið sem verður 15. maí í ár, en þetta er í 3. skipti sem hlaupið er haldið. Þetta hlaup er gríðarlega skemmtilegt og voru um 60 manns í fyrra og við vonumst að sjálfsögðu eftir ennþá betri mætingu en þá. Farnar verða 3 vegalengdir eins og síðustu sumur og fólk ræður ferðinni, hvort það vill skokka eða jafnvel hjóla. Um 8 hjólreiðamenn voru með í fyrra. Sumir tóku líka "tvíþraut", hjól og skokk.
Vegalengdirnar eru 3:
35 km, Átak - Eyvindarstaðir í Sölvadal.
24 km, Hrafnagil - Eyvindarstaðir í Sölvadal.
8 km. Saurbær - Eyvindarstaðir í Sölvadal.
Við gerum ráð fyrir tímasetningum sem fólk gæti náð saman á 6 min/km. pace, þannig að það lagt verður af stað:
frá Átaki kl. 8:15,
frá Hrafnagili kl. 9:30, og
frá Smámunasafninu kl. 11. 
Þannig dreifist hópurinn minnst.  Þeir sem vilja byrja á því að sprengja sig með því að hlaupa hratt inn að Hrafnagili, þeir leggja bara af stað seinna frá Átaki, við nefnum engin nöfn.  En án gríns, þá er sniðugast að reyna frekar að fara hratt seinni hluta leiðarinnar en í byrjun, ef maður vill fara hratt.
Það er líka hefð fyrir því að það er gott veður þennan dag, þannig að það er bara um að gera að fara að hlakka til. 
Drykkjarstöðvar verða á leiðinni.
Skráning fer fram í Átaki og Þrekhöll.
Eftir hlaup verða veitingar á Eyvindarstöðum!  Já, það er ekki að spyrja að gestrisninni í sveitinni.
Sjáumst hress og kát í skemmtilegu hlaupi :-)

Eyrarskokk um páskana

Hlaupahópurinn fer nú aldeilis ekki í páskafrí frekar en jólafrí.  Nú er vor í lofti og um að gera að fara út að hreyfa sig.  Við látum Reykvíkingum og öðrum útlendingum Hlíðarfjall eftir, allavega á hlaupaæfingatímum og mætum bara öll niður í Átak á þessum venjulegu tímum.  Ja, nema þeir sem ætla að taka þátt í síðasta vetrarhlaupinu þennan veturinn, en það fer frá Bjargi kl. 11 núna á laugardaginn, 27. mars.

Á mánudaginn ætlum við að endurvekja brekkusprettina, kl. 17:15 frá Átaki og mun það vonandi líta nokkurnveginn svona út:
Upphitun:  Út Norðurgötuna, upp hjá Greifanum og upp brekkuna fyrir sunnan Akureyrarvöllinn að Amtsbókasafninu. 
Sprettir nokkrum sinnum upp litlu brekkuna að Krabbastíg t.d. 
upp alla Oddeyrargötuna
rólega niður að Akureyrarkirkju og niður kirkjutröppurnar
upp tuttugu tröppur og niður tíu alla leiðina upp
niður allar tröppurnar
endurtekið að lyst og síðan farið niður hjá Sigurhæðum og suður Hafnarstrætið að Menntaveginum.
Á fullu upp Menntaveginn.
Rólega Eyrarlandsveginn framhjá Lystigarðinum og rólega niður Spítalaveginn að Brynju.
Þar geta þeir sem ekki hafa fengið nóg, spænt upp Lækjargilið og beygt inn á Nonnastíginn þar sem hann kemur inn á Lækjargötuna í miðri brekku, og farið svo alla leið upp að Kapellu við Kirkjugarðinn. Eftir það breytist þetta í óvissuferð.
Allir eiga að geta verið með, en hver og einn verður að eiga það við sjálfan sig hvað hann vill fara hratt upp brekkurnar og hversu margar ferðir maður tekur.  Eins hversu lengi maður er með, það er í fínu lagi að hætta og skoppa út í Átak aftur t.d. hjá Brynju.  Eða bara eftir Kirkjutröppurnar.

Nú, og svo er venjuleg æfing á þriðjudaginn í hádeginu og miðvikudaginn seinnipartinn. Já og laugardaginn fyrir páska er æfing kl. 9:30 frá Átaki.  En síðan endurtökum við þetta prógramm hér að ofan á annan í páskum sem er jú mánudagur líka.

Allir útlendingar og utanbæjarmenn og aðrir sem eru ekki á póstlistanum eru velkomnir að slást í hópinn með okkur.   Kannski það sé vegna þess að nokkur okkar vinna oft í Þingeyjarsýslum að við erum ákaflega ánægð með okkur og fullviss um að við erum besti og skemmtilegasti hlaupahópur norðan alpanna og þótt víðar væri leitað.  Hver segir að það borgi sig að taka sjálfan sig of alvarlega?

Páskahlaupakveðja,

Fríða

p.s. hér er fólk beðið um að ímynda sér að sé páskaungi :)


Súlur 06.02.10

Það er vel hægt að ganga á Súlur í vestunum og hlaupaskónum eins og sjá má á myndunum hér til hliðar.

Myndir frá Gamlárshlaupi

Kristján Kristjánsson ritstjóri Vikudags sendi okkur nokkrar myndir sem eru hér til hliðar.

kv

Fríða


Gleðilegt ár

Kæru skokkarar nær og fjær. 

Takk fyrir hlaupaárið sem er nýliðið og megi árið sem er nýbyrjað verða okkur enn betra hlaupaár. 

Við höfum staðið okkur frábærlega og spurning hvort hægt sé að toppa það?  Jú, það er allt hægt.  Ég veit ekki hvort við eigum nokkuð að vera að tína til eitthvað sem gerst hefur á liðnu ár sem er mikilvægara en annað.  Auðvitað standa keppnishlaupin upp úr, en hið daglega amstur er jafn mikilvægt, því hvernig gengi þetta ef maður færi ekki út reglulega?   Það sást nú í Gamlárshlaupinu hvað við erum öflug, ég held það hafi verið hátt í 40 Eyrarskokkarar með þar.

Mig langar til að deila með ykkur færslu Deans Karnazes sem finna má á síðu Runner's World.  Svo ég leyfi mér að koma hér með örlítinn úrdrátt, þá hvetur hann okkur hlauparana til að finna eigin takt, einbeita okkur að settum markmiðum, mistakast með glæsibrag ef því er að skipta, gefa okkur tíma til að skreppa út að skokka hversu annríkt sem maður á annars, og já, bara halda áfram að kanna nýjar hlaupaslóðir :)

Áramótahlaupakveðja,

Fríða


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband