26.11.2008 | 19:55
Naustaborgir
Við mættum fjögur niður í Átak og öll í vestum nema Helga sem hafði fundið til fínt vesti merkt og allt, en hafði svo gleymt því. Hún fékk lánað endurskinsband í afgreiðslunni. Svo langaði mig til að sleppa við svifrykið og Helga vitnaði í einhvern hundaeiganda sem hafði sagt að stígarnir í Kjarna væru frábærir núna, frosin möl, alveg besta færi sem hugsast gæti. Og við ákváðum þá eftir nokkuð japl jamm og fuður að fara upp í stóra fína bílinn hans Sigga og keyra upp á bílastæðið við Naustaborgir. Lögðum öll af stað galvösk út í bíl og snerum öll við samtímis þegar við föttuðum öll að við vorum öll að gleyma græjunum okkar sem við höfðum skilið eftir úti til að þær töpuðu ekki tungli. Helga kvartaði undan kuldanum í bílnum hans Sigga og Gunni kvartaði undan músagangi. Ég hafði nú mestar áhyggjur af því að hann væri á nöglum en þagði um það.
Við hlupum svo þarna af stað eftir stígnum í gegn um Naustaborgir, öll í takt og töluðum um það þegar við komum að ljósastaur sem var slökkt á að það væri kannski svolítið dimmt þarna. En það var nú allt í lagi. Svo mættum við hundi og manni og Helga sagði seinna að þetta væri maðurinn sem hefði sagt að stígarnir væru fínir. Það var víst eins gott fyrir hann að við mættum honum í upphafi ferðar og ekki þegar við vorum að koma til baka. Því þegar við komum þarna syðst í Kjarnaskóg þar sem hallar mikið undan fæti, þá var þar slík fljúgandi hálka að annað eins hefur sjaldan sést. Og svo sást hún líka varla því það var jú svo dimmt! Og ég persónulega kann betur við það að sjá til þegar ég dett. Helga verður jú aldrei veik þannig að hún hætti ekki á neitt og ég hugsaði að það væri betra að hafa læknana fyrir aftan mig þegar ég dytti og beinbryti mig og flýtti mér að vera á undan Helgu og Sigga, en Gunni hvarf þarna einhversstaðar fyrir framan okkur. Enda meiðir hann sig bara við það að beygja sig niður í pottaskáp og ekki við að detta niður úr stillans. Svo kom Gunni allt í einu aftur og fór að tala um að það væri gott að hafa sálfræðing með í för, þannig að það hljómar pínu eins og hann hafi meira þjáðst af einhverri fælni en beinbrotum. Myrkfælni?
En það voru ein stór mistök þarna í þessu öllu hjá okkur. Það var engin þörf fyrir vestin!
Fríða
Athugasemdir
Spurningar og svör.
Það getur verið að Gunni hafi verð hræddur í myrkrinu, en ég held að málið sé að hann hefur svo mikla þörf fyrir að vera innanum fólk að honum hafi bara leiðst að vera einn, og þá var heldur engin til að segja honum að hann væri flottastur!! En afhverju voru vestin óþörf? Ég held að í myrkri sú vestin góð, því að í myrkri þá sjást grængulu vestin mun betur en svartur hlaupagalli. Ég veit ekki afhverju hlaupafatnaður er oftast Svartur, það lookar að vísu vel á daginn en ekki eins vel á dimmum vetrarkvöldum.
Geiri (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 10:00
Já, auðvitað. Við verðum nú að passa að muna betur að segja honum að hann sé flottastur. Vestin voru allavega ekki nauðsynleg til að bjarga okkur frá árekstrum við bíla, það voru engir bílar þarna á skógarstígunum. En jú, það er auðveldara að koma auga á þau í myrkrinu. Ég sá það þar sem ég var öftust að Helga sást ekki á meðan strákarnir voru mjög greinilegir.
Fríða (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 17:19
Gunni II (annar)(samanber kosninguna í haust) er svo mikill félagsvera honum hefur bar leiðst. hann hefur greinilega engan til að keppa við, enda er ég alltaf útá annesjum. Vestin eiga að vera staðalbúnaður hjá hlaupurum helst allan ársins hring, eða einog máltækið segir "Betra er að vera hallærislegur hlaupari en huggulegt lík"
Valur Þór Hilmarsson (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 19:42
Tel rétt að láta ykkur vita að ég er á lífi og meira að segja stálhraust þó ég hafi ekki mætt síðan á miðvikudag í síðustu viku. Þykir það heldur súrt en tel mig hafa fulla poka af afsökunum............. Kemst vonandi á mánudag.
Kristín (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 20:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.