22.12.2009 | 16:22
Jólaæfingar
Sælir Eyrarskokkarar.
Var nokkur sem hélt að við færum í jólafrí? Nei, svo er nú aldeilis ekki. Að vísu er Átak stundum lokað þegar við leggjum af stað samkvæmt okkar gömlu góðu áætlun, en við höldum okkur samt við hana og hittumst á bílaplaninu þótt húsið sjálft sé kannski lokað. Það er bara venjuleg æfing kl. 17:15 á morgun og það er engin ástæða til að aflýsa hádegishópnum á fimmtudag, við erum hvort sem er öll búin að öllu tíu mínútur yfir tólf á aðfangadag og upplagt að mæta þá í hlaupahóp með jólasveinahúfur og gera pláss fyrir jólasteikina. Eins er full ástæða til að mæta bara á venjulegum tíma laugardaginn 26. desember, þ.e. kl. hálftíu og gera pláss fyrir veigarnar sem sumir hafa fyrir sið að innbyrða að kvöldi annars í jólum.
Dagarnir milli jóla og nýjárs eru bara venjulegir æfingadagar og svo kemur Gamlárshlaupið. Þar taka allir þátt sem vettlingi geta valdið. Mér skilst að það sé aftur búningakeppni liða eins og í fyrra, og ég hef hlerað að UFA liðið ætli að vera í búningum, við Eyrarskokkarar toppum það. Ég veit að Samherjastelpurnar sem hafa verið svo duglegar að mæta í hádegishópinn ætla að vera saman í búningaliði og við hinar gerum þá eitthvað skemmtilegt líka. Eyrarskokkskarlar, þið finnið upp á einhverju. Það verður vonandi tækifæri til að plana það betur á einhverjum af öllum þessum hlaupaæfingum sem eru í millitíðinni.
Jólaskokkkveðja,
Fríða
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2009 | 09:20
Sólstöðuhlaup á Vaðlaheiði 19. desember
Það er nú svo gaman að hafa einhverjar hefðir. Við erum ungur hlaupahópur, en samt er komin hefð á að hlaupa inn að Eyvindarstöðum á vorin. Eins væri gaman ef við gætum gert það að hefð að hlaupa upp að neðra mastrinu við gamla Vaðlaheiðarveginn á laugardegi nærri vetrarsólstöðum. Það gerðum við í fyrra og þannig laugardagur er núna 19. desember.
Það er að vísu spáð aðeins snjókomu, en vonandi verður vegurinn ekki ófær. Dagskráin væri þá nokkurnveginn svona:
kl. 9:30 lagt af stað frá Átaki og hlaupið sem leið liggur upp að hjartanu í Vaðlaheiði og áfram norður gamla veginn upp að mastrinu.
ca. kl. 11: hlauparar koma að bíl sem bíður þeirra þar sem boðið er upp kakó og smákökur.
ca. kl. 11:15 lagt af stað niður Vaðlaheiðarveginn aftur
ca 12:15 farið í heita pottinn í Átaki.
Tímarnir eru nú bara svona sirka. Í fyrra voru þetta 26,5 km í allt og vegalengdin hefur að öllum líkindum ekki breyst. Og það er alls ekki meiningin að fólk verði að hlaupa alla leiðina. Það mætti t.d. hugsa sér að einhver sem vill hlaupa fyrri hlutann láni öðrum sem vill hlaupa seinni hlutann bílinn sinn þannig að sá sem vill hlaupa seinni hlutann keyrir upp að mastrinu. Nú, og svo er til dæmis hægt að húkka sér far upp að hjartanu og hlaupa þaðan upp að mastrinu, það ættu að vera ca. 5 km. Látið mig endilega vita ef þið hafið bíl (og hugsanlega bílstjóra þá líka) til umráða sem getur verið við endastöðina með kakóbrúsann. Ef kalt er í veðri er gott að geta farið aðeins inn í bíl til að kólna ekki um of í stoppinu. Og eins er gott að hafa aukaúlpu í þessum bíl til að fara í meðan áð er. Jólasveinahúfur eru líka vel séðar.
Fríða
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.11.2009 | 16:03
Byrjendur?
Við viljum vera hlaupahópur fyrir alla, byrjendur jafnt sem lengra komna. En einhvernveginn þá virðist tilhneigingin alltaf vera sú að þeir sem mæta oftast, allavega á laugardögum og seinnipartinn, eru þeir sem hlaupa 14 kílómetra á klukkutíma og 14 mínútum. Sem er allt of langt og hratt fyrir flesta. Það er náttúrulega hundleiðinlegt að mæta þarna og svo hlaupa bara allir í burtu! En, það er samt ekki við þá að sakast sem hlaupa fjórtán kílómetra á klukkutíma og fjórtán mínútum. Þeir geta ekkert að því gert. Jú, ok, þeir gætu kannski farið fyrstu kílómetrana hægar. En ég held bara ekki að það sé nóg.
Það stendur svolítið upp á "byrjendurna" að mæta betur í hópinn. Þannig að það sé ekki bara einn byrjandi í hvert skipti. Það hefur sést til ykkar á öðrum tímum kæru "byrjendur".
Ég legg til að það verði formlegur 5 kílómetra hópur á miðvikudögum, og jafnvel laugardögum líka, sem leggur af stað um leið og 14 kílómetrahópurinn. Og 5 kílómetra hópurinn finni sér svo skemmtilegar leiðir til að fara, ekki bara alltaf inn að Skautahöll, heldur kannski yfir rauðu brúna á Glerá, upp á Háskólastíginn og eitthvað í þeim dúr. Fólk úr 14 kílómetrahópnum-á-klukkutíma-og-14mínútum, hefur stundum boðist til að fylgja byrjendunum, en það er ekkert alltaf sniðug hugmynd. Það getur verið óskaplega pirrandi að hafa á tilfinningunni að það sé alltaf verið að bíða eftir manni. Nú og svo er vitað til þess að það hafi jafnvel orsakað hjónaskilnaði t.d. hvað eiginmaðurinn var þolinmóður á svipinn að bíða eftir eiginkonunni. Nei, það er miklu skemmtilegra að hlaupa með einhverjum sem er á sama róli og maður sjálfur. En til þess að mynda hóp, þá verður fólk að mæta! Einn hlaupari er ekki hópur. .. held ég.
Komaso! Allir þeir sem vilja láta sér nægja að hlaupa 5 kílómetra í einu, á pace yfir 6.
Og, plís, munið endurskinsvestin. Við megum ekki við því að missa einn einasta hlaupara. Með þessa svörtu hlaupafatatísku sem er allsráðandi, þá eru hlauparar bara alveg ósýnilegir ef þeir eru ekki í vesti. Þetta er ekkert grín.
Hlaupakveðja,
Fríða
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2009 | 17:34
Nýjar myndir
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2009 | 20:32
Snilldarárshátíð
Kæru Eyrarskokkarar nær og fjær og þá sérstaklega árshátíðarnefndin.
Ástarþakkir fyrir frábæra árshátíð.
Mætingin var góð, næst verður hún ennþá betri. Því það er alveg á hreinu að enginn má missa af svona upplifunum. Það er af svo mörgu skemmtilegum minningum að taka að ég ætla ekki að byrja á upptalningunni. Nefndin á bestu þakkir skilið og Gulli fær aldeilis tækifæri til að spreyta sig á því að toppa þetta að ári. Miðað við uppistandarahæfileika hans, þá hlýtur allt hitt að falla honum létt.
Og þá bíðum við bara spennt eftir myndunum. Ef þið sendið mér myndir mun ég birta þær. Bara róleg, ég skal ritskoða þetta fyrst. Ekki það að það sé mikil ástæða til þess, Eyrarskokkarar gera jú aldrei neitt sem alheimur má ekki sjá, en samt...
Mér þykir bara verst að vinnan tefur mig frá því að hitta ykkur aftur þangað til ég veitekkihvenær, Það er nefnilega hluti af þessu, að rifja upp allt þetta skemmtilega aftur og aftur .
Nú, og svo kom aftur upp umræða um brúarhlaupið milli Danmerkur og Svíþjóðar 12. júní 2010. Skoðið þetta endilega.
Hlaupakveðja
Fríða
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.10.2009 | 21:45
Æfingin á laugardaginn, 17.10.09
Dagskrá:
Hittast fyrir utan sundlaugina í Þelamörk kl. 9.30 á laugardaginn. Muna eftir að hafa sundfötin með sér og skotsilfur í laugina.
Þarna skiljum við flesta bílana eftir, troðum okkur í einhverja bíla og keyrum að Hlíðarbæ.
Frá Hlíðarbæ hlaupum við niður Skjaldarvíkurveginn að Gásum og svo að Hörgá og að Þelamörk, áætluð vegalengd 12-13 km.
Sá sem fyrstur kemur í Þelamörk gæti keyrt á móti hópnum og boðið þeim sem vilja far síðasta spölinn
Nú svo skella allir sér í laugina og slaka á og njóta lífsins
Þegar heim er komið getur fólk svo moppað, lagt sig, sett í vél, horft á sjónvarp eða bara eitthvað skemmtilegra en þetta...... ...
Áður en áfram er haldið með hátíðlegheitin því árshátíð Eyrarskokks er þennan dag, sjá síðustu færslu.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.10.2009 | 23:26
Árshátíð - fyrsta auglýsing
Kæru Eyrarskokkarar þá er loksins komið að því !!!!!!!!!!!
Árshátíðin margrómaða verður haldin 17. október og að sjálfsögðu mæta allir, engin vottorð tekin gild.
Sérstaklega bjóðum við nýja skokkara og slasaða fyrrverandi" skokkara velkomna.
Til að nefndin geti haldið áfram skipulagningu þyrftum við að vita sem fyrst um fjölda þátttakenda. Skráning á netfangið indaj@simnet.is fyrir fimmtudaginn 8. október, munið að makar og aðrir áhangendur eru hjartanlega velkomnir ( engin gæludýr, takk fyrir).
Allar ábendingar um staði, skemmtiatriði og mat vel þegnar.
Væri ekki gaman að dansa smá líka???
f.h. nefndarinnar (Arna, Helga, Inda)
Inda
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2009 | 14:47
Kjarnaskógur laugardaginn 26.09.09
Sælir skokkarar.
Á morgun, laugardag ætlum við að mæta á venjulegum tíma kl. 9:30 við Átak. Og síðan verður stefnan tekin inn í Kjarnaskóg, byrjendur og aðrir sem ætla ekki að hlaupa mjög langt safnast saman í bíla og keyra þangað, langhlauparar hlaupa bara inneftir og svo hittumst við aftur á bílastæðinu við salernishúsið. Síðan lendum við örugglega upp fyrir kletta eða eitthvað, það hleypur alltaf í mann þvílíkur fítonskraftur við að koma svona út í náttúruna. Byrjendurnir þurfa samt engar áhyggjur að hafa, það er ekki stefnt á neitt ofurhlaup þarna og ég persónulega ætla að reka lestina þannig að enginn ætti að týnast alvarlega. Og ég þykist þekkja þarna hverja þúfu. En þetta gæti samt tekið lengri tíma en venjuleg hlaupaæfing frá Átaki.
Svo vorum við Óskar að spá í að stefna á árshátíð 16. október, það væri ágætt að heyra skoðanir fólks á því máli, við kannski náum að spjalla eitthvað um það þarna inni í Kjarnaskógi?
Hlaupakveðja
Fríða
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2009 | 20:32
Allt á fullt
Kæru Eyrarskokkarar.
Við höfum haft ósköp hljótt um okkur undanfarið, en nú er ný árstíð byrjuð með tilheyrandi markmiðum og skemmtilegheitum. Það stendur meðal annars til að byrja ný byrjendanámskeið í næstu viku 8. september kl. 12:10. og 9 september kl. 17:15. Vonandi tekst svo vel til að það bætist margir nýir hlauparar í hópinn. Hugsunin er að hafa þetta svipað og í vor. Byrjað verður rólega, allt eftir getu hvers og eins. Þeir sem hafa ekki hlaupið áður ganga og hlaupa til skiptis til að byrja með, en á þessu námskeiði er markmiðið að geta hlaupið 4-5km að námskeiði loknu eftir ca. mánuð og geta þá verið samferða gamla hópnum. Eitthvað allavega.
Annars lofar mætingin góðu nú þegar, það eru 8 10 manns að mæta í hvert skipti, bæði í hádegishóp og síðdegishóp. Á laugardaginn, hinndaginn, er Eyþór að tala um að fara Eyjafjarðarhringinn, spurning hvort einhver nenni með honum. Ég held að ég nenni með ef hann nennir að bíða svolítið eftir mér stundum. Það eru örugglega fleiri sem nenna með okkur, er það ekki?
Nú, og svo líður að því að við þurfum að fara að búa okkur undir árshátíðina sem verður líklega einhverntíma í október, kannski jafnvel snemma í október. Óskar gengur um með svakalega góða hugmynd í kollinum og það er spennandi hvort það gengur upp. Við verðum að gera ráð fyrir því að keppnin um vinsælasta Eyrarskokkarann verði endurtekin og um að gera að fara nú í kosningabaráttu. Nú eru mennirnir sem voru í efstu sætunum dottnir úr leik og við hin eigum þá betri séns. Þetta er bara eins og í fegurðarsamkeppnunum þar sem maður getur alltaf reynt að vera vinsælasta stúlkan ef maður er ekki fallegasta stúlkan. Það er vonandi enginn hér sem heldur að þetta skokk gangi út á það að reyna að vera fljótastur að hlaupa. Nei, ég segi nú bara svona :)
Valtýr tók fullt af skemmtilegum myndum í sumar af Akureyrarhlaupinu og sumar þeirra eru hér: http://eyrarskokk.blog.is/album/landsmotshlaup_2009/ Já, Eyrarskokk er með bloggsíðu já, og er fólk eindregið hvatt til að skrifa eitthvað á þessa bloggsíðu svo hún lognist nú ekki alveg út af. Sendið mér innleggin í tölvupósti og ég birti þau á síðunni um hæl. Myndir eru líka afskaplega vel þegnar.
Okkur vantar kannski einhver markmið, svona eitthvað stórt hlaup, hálft eða heilt maraþon einhversstaðar í heiminum. Og sú hugmynd kom upp í síðdegishópnum að við gætum stefnt á Broløbet http://www.sparta.dk/brolobet/dk/796we.aspx?langId=1 það er 12. júní 2010, hálfmaraþon yfir brúna milli Danmerkur og Svíþjóðar. Þetta virðist vera mjög breitt hlaup, þ.e. fólk er farandi þetta mjög mishratt og meira að segja boðið upp á fartholder (dont you just love danish) frá 4:00 og alveg upp í 6:30 pace. Skoðið þetta endilega og segið hvað ykkur finnst. Það er minna mál að fljúga til Amager frá Akureyri en að keyra til Reykjavíkur og við getum víst örugglega reiknað með beinu flugi á þessum tíma.
Hlaupakveðja
Arnfríður Kjartansdóttir
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2009 | 10:49
Myndir frá Landsmótshlaupi
Til hamingju Eyrarskokkarar með frábært Landsmótshlaup, við stóðum okkur öll með sóma, hvort sem það var sem sjálfboðaliðar eða hlauparar. Það skiptir mestu máli að vera með og gera sitt besta, alveg óháð því hvort maður vinnur eða ekki. Eða er það ekki?
Valtýr Hreiðarsson tók aldeilis frábærar myndir þegar Landsmótsmaraþonið fór fram. Þær eru í myndaalbúmi hér til hliðar.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)