Allt á fullt

Kæru Eyrarskokkarar.

Við höfum haft ósköp hljótt um okkur undanfarið, en nú er ný árstíð byrjuð með tilheyrandi markmiðum og skemmtilegheitum. Það stendur meðal annars til að byrja ný byrjendanámskeið í næstu viku 8. september kl. 12:10. og 9 september kl. 17:15. Vonandi tekst svo vel til að það bætist margir nýir hlauparar í hópinn. Hugsunin er að hafa þetta svipað og í vor. Byrjað verður rólega, allt eftir getu hvers og eins. Þeir sem hafa ekki hlaupið áður ganga og hlaupa til skiptis til að byrja með, en á þessu námskeiði er markmiðið að geta hlaupið 4-5km að námskeiði loknu eftir ca. mánuð og geta þá verið samferða gamla hópnum. Eitthvað allavega.

Annars lofar mætingin góðu nú þegar, það eru 8 – 10 manns að mæta í hvert skipti, bæði í hádegishóp og síðdegishóp. Á laugardaginn, hinndaginn, er Eyþór að tala um að fara Eyjafjarðarhringinn, spurning hvort einhver nenni með honum. Ég held að ég nenni með ef hann nennir að bíða svolítið eftir mér stundum. Það eru örugglega fleiri sem nenna með okkur, er það ekki?

Nú, og svo líður að því að við þurfum að fara að búa okkur undir árshátíðina sem verður líklega einhverntíma í október, kannski jafnvel snemma í október. Óskar gengur um með svakalega góða hugmynd í kollinum og það er spennandi hvort það gengur upp. Við verðum að gera ráð fyrir því að keppnin um vinsælasta Eyrarskokkarann verði endurtekin og um að gera að fara nú í kosningabaráttu. Nú eru mennirnir sem voru í efstu sætunum dottnir úr leik og við hin eigum þá betri séns. Þetta er bara eins og í fegurðarsamkeppnunum þar sem maður getur alltaf reynt að vera vinsælasta stúlkan ef maður er ekki fallegasta stúlkan. Það er vonandi enginn hér sem heldur að þetta skokk gangi út á það að reyna að vera fljótastur að hlaupa. Nei, ég segi nú bara svona :)

Valtýr tók fullt af skemmtilegum myndum í sumar af Akureyrarhlaupinu og sumar þeirra eru hér: http://eyrarskokk.blog.is/album/landsmotshlaup_2009/ Já, Eyrarskokk er með bloggsíðu já, og er fólk eindregið hvatt til að skrifa eitthvað á þessa bloggsíðu svo hún lognist nú ekki alveg út af. Sendið mér innleggin í tölvupósti og ég birti þau á síðunni um hæl. Myndir eru líka afskaplega vel þegnar.

Okkur vantar kannski einhver markmið, svona eitthvað stórt hlaup, hálft eða heilt maraþon einhversstaðar í heiminum. Og sú hugmynd kom upp í síðdegishópnum að við gætum stefnt á „Broløbet” http://www.sparta.dk/brolobet/dk/796we.aspx?langId=1 það er 12. júní 2010, hálfmaraþon yfir brúna milli Danmerkur og Svíþjóðar. Þetta virðist vera mjög „breitt“ hlaup, þ.e. fólk er farandi þetta mjög mishratt og meira að segja boðið upp á „fartholder“ (don‘t you just love danish) frá 4:00 og alveg upp í 6:30 pace. Skoðið þetta endilega og segið hvað ykkur finnst. Það er minna mál að fljúga til Amager frá Akureyri en að keyra til Reykjavíkur og við getum víst örugglega reiknað með beinu flugi á þessum tíma.

Hlaupakveðja

Arnfríður Kjartansdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er alltaf gaman þegar fólk er með hvetjandi plön.  Ég veit að skautarhallardrottningarnar eru búnar að skrá sig í brúarhlaupið og ég í London og Gautaborg svo að það er af nógu af taka næsta vor.  Ég legg til að árshátíðin verði haldin 10 okt og þá  verðið hlaupið gamla veginny fir Vaðlaheiðina með gleðistoppi á háhæðinni.  Um kvöldið finnum við stað til að fagna á.

Sigurður E (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband