Eyrarskokk um páskana

Hlaupahópurinn fer nú aldeilis ekki í páskafrí frekar en jólafrí.  Nú er vor í lofti og um að gera að fara út að hreyfa sig.  Við látum Reykvíkingum og öðrum útlendingum Hlíðarfjall eftir, allavega á hlaupaæfingatímum og mætum bara öll niður í Átak á þessum venjulegu tímum.  Ja, nema þeir sem ætla að taka þátt í síðasta vetrarhlaupinu þennan veturinn, en það fer frá Bjargi kl. 11 núna á laugardaginn, 27. mars.

Á mánudaginn ætlum við að endurvekja brekkusprettina, kl. 17:15 frá Átaki og mun það vonandi líta nokkurnveginn svona út:
Upphitun:  Út Norðurgötuna, upp hjá Greifanum og upp brekkuna fyrir sunnan Akureyrarvöllinn að Amtsbókasafninu. 
Sprettir nokkrum sinnum upp litlu brekkuna að Krabbastíg t.d. 
upp alla Oddeyrargötuna
rólega niður að Akureyrarkirkju og niður kirkjutröppurnar
upp tuttugu tröppur og niður tíu alla leiðina upp
niður allar tröppurnar
endurtekið að lyst og síðan farið niður hjá Sigurhæðum og suður Hafnarstrætið að Menntaveginum.
Á fullu upp Menntaveginn.
Rólega Eyrarlandsveginn framhjá Lystigarðinum og rólega niður Spítalaveginn að Brynju.
Þar geta þeir sem ekki hafa fengið nóg, spænt upp Lækjargilið og beygt inn á Nonnastíginn þar sem hann kemur inn á Lækjargötuna í miðri brekku, og farið svo alla leið upp að Kapellu við Kirkjugarðinn. Eftir það breytist þetta í óvissuferð.
Allir eiga að geta verið með, en hver og einn verður að eiga það við sjálfan sig hvað hann vill fara hratt upp brekkurnar og hversu margar ferðir maður tekur.  Eins hversu lengi maður er með, það er í fínu lagi að hætta og skoppa út í Átak aftur t.d. hjá Brynju.  Eða bara eftir Kirkjutröppurnar.

Nú, og svo er venjuleg æfing á þriðjudaginn í hádeginu og miðvikudaginn seinnipartinn. Já og laugardaginn fyrir páska er æfing kl. 9:30 frá Átaki.  En síðan endurtökum við þetta prógramm hér að ofan á annan í páskum sem er jú mánudagur líka.

Allir útlendingar og utanbæjarmenn og aðrir sem eru ekki á póstlistanum eru velkomnir að slást í hópinn með okkur.   Kannski það sé vegna þess að nokkur okkar vinna oft í Þingeyjarsýslum að við erum ákaflega ánægð með okkur og fullviss um að við erum besti og skemmtilegasti hlaupahópur norðan alpanna og þótt víðar væri leitað.  Hver segir að það borgi sig að taka sjálfan sig of alvarlega?

Páskahlaupakveðja,

Fríða

p.s. hér er fólk beðið um að ímynda sér að sé páskaungi :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband